Árið 1967 sameinast sveitarfélögin í Reykjanesumdæmi og ríkissjóður um að reisa heimavistarskóla í Krýsuvík í samvinnu við Sumarbúðanefnd þjóðkirjunnar. Byggingarframkvæmdir hefjast og skólinn er reistur þ.e.a.s hann er tilbúinn undir tréverk. Tilgangurinn með byggingu þessa skóla var að koma á fót heimarvistarskóla fyrir unglinga, sem áttu í erfiðleikum og féllu ekki inn í skólakerfið. Þegar byggingu skólans var lokið kom í ljós að hugmyndir manna um uppeldis- og skólamál höfðu breyst. Nú þótti æskilegra að unglingar með vandamál væru látnir aðlaga sig hefðbundnu skólastarfi og öfugt. Sátu því sveitarfélögin og ríkissjóður uppi með húsnæði fyrir 60 unglinga, sem enginn vildi nota. Aðeins einu sinni hefur skólinn verið notaður áður, þegar svínabóndi nokkur fékk að geyma gripi sína þar í nokkra daga. Eins og með önnur hús sem ekki eru nýtt og haldið við var skólinn farinn að láta á sjá. Flestar rúður brotnar, ofnar fjarlægðir og leki kominn í þakið, mátti því þetta veglega skólahús muna sinn fífil fegri.
Árið 1984 var skólinn auglýstur til sölu. Þeir sem stóðu að tilboði í skólann voru hópur manna sem vildi vinna að því að hjálpa þeim unglingum, sem höfðu ánetjast vímuefnum.
31. Janúar 1986 samþykkti ríkissjóður, sem átti 75% skólans og sveitarfélög sem áttu 25% að selja fyrrnefndum aðilum skólann. Þessi hópur heitir í dag Krýsuvíkursamtökin. Krýsuvíkursamtökin voru því í byrjun stofnuð til þess að reka meðferðarheimili fyrir ungt fólk á aldrinum 14-20 ára, sem eiga við vímuefnavandamál að stríða. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar.