Skip to main content
Monthly Archives

október 2019

TILKYNNING

Eftir Fréttir

TILKYNNING

Að gefnu tilefni vilja Krýsuvíkursamtökin koma eftirfarandi á framfæri vegna óvæginnar umfjöllunar, í einstökum fjölmiðlum, þar sem vegið er að heiðri og trúverðugleika Samtakanna. Hafa fréttamenn viðkomandi fjölmiðla farið hamförum í umfjöllun sinni á vægðarlausan, ómálefnalegan og ófyrirleitinn hátt án þess að gera grein fyrir þeirri mikilvægu starfsemi sem unnin er í Krýsuvík. Þannig hafa starfsmenn, sem beiðst hafa undan óvæntum og ágengum viðtölum blaðamanna, verið málaðir upp sem grunsamlegir og jafnvel skaðlegir fyrir starfsemina. Það er ekki annað hægt en að telja slíkt vera grimmilega aðför að starfsemi sem hefur aðstoðað fjölda fólks á vandasamri vegferð þeirra til betra lífs. Fjöldi þeirra vímuefnaneytenda sem náð hafa bata í gegnum starfsemi Samtakanna á umliðnum árum, og eru laus við áfengi og vímuefni, skiptir hundruðum.

Krýsuvíkursamtökin hafa verið starfrækt í 33 ár eða allt frá árinu 1986. Samtökin hafa verið farvegur fyrir einstaklinga sem lengst eru leiddir í fjötrum áfengis- og fíkniefna. Hafa vistmenn verið búsettir á heimili Samtakanna frá 6 mánuðum og allt upp í 3 ár áður en þeir hafa verið leiddir út í lífið aftur. Þannig hafa Samtökin rekið eina meðferðarúrræðið hér á landi sem býður skjólstæðingum sínum upp á svo langan meðferðartíma.

Samtökin hafa átt gott og farsælt samstarf við félagsmálaráðuneytið og ríkir gagnkvæmur skilningur um mikilvægi Samtakanna. Sá samningur sem ráðuneytið og Samtökin hafa gert er margþættur og lýtur að flestum þáttum starfseminnar. Það felur m.a. í sér stöðugar umbætur í stefnum, starfsemi, mannauðsmálum og vaktafyrirkomulagi auk samkomulags um úttekt og eftirlit Landspítala.

Það er Samtökunum mikilvægt að starfsemin sé í samræmi við nútímaleg viðmið og gildi og að sátt ríki um starfsemina. Árið 2016 gerði Landlæknir úttekt og mat á gæðum, öryggi og þjónustu á meðferðarheimili Samtakanna að Krýsuvík. Í kjölfarið kom embættið með ábendingar varðandi þau atriði sem betur máttu fara varðandi starfsemi og húsakost. Samtökin hafa tekið slíkum ábendingum fagnandi og leitast við að bæta úr eins og kostur er samhliða því að reka heimilið. Þannig starfa samtökin samkvæmt lögum, samþykktum og reglum sem gilda um starfsemina auk þess sem Samtökin hafa sett sér siðareglur, innri starfsreglur og ferla sem eru endurskoðaðir eftir þörfum. Þá hafa stjórnarhættir Samtakanna einnig verið teknir til endurskoðunar og hafa einstaklingar stigið til hliðar til að tryggja frið um starfsemina.

Það hefur verið markmið Samtakanna að reka starfsemina á látlausan hátt og sigla frekar undir ratar fjölmiðla og samfélagsmiðla. Með það að markmiði hefur stofnunin og vistmenn sem þar dvelja notið ákveðinnar friðhelgi, laus við ágang samfélagsins og hafa vistmenn þannig fengið svigrúm til að vinna að sínum bata. Fjölmargir starfmenn, sem brenna fyrir málefni veikra fíkla og alkohólista, hafa komið að rekstri og starfsemi Samtakanna og unnið þar af heilindum og með sameiginlegt markmið að leiðarljósi – að bjarga þeim sem verst eru staddir í fíknisjúkdómi sínum.

Fjármál og rekstur Samtakanna hafa fengið óvægna umfjöllun án þess að stuðst sé við raunveruleg gögn og/eða samhengi. Það er kostnaðarsamt að reka meðferðarheimili eins og Krýsuvík þar sem búa um 20 skjólstæðingar hverju sinni auk starfsmanna. Það er mikilvægt fyrir meðferðarheimilið, vistmenn og starfsfólk að öryggismál séu með viðunandi hætti og að samgöngumál starfsmanna og skjólstæðinga séu eins og best verður á kosið. Einnig er það Samtökunum afar mikilvægt að geta boðið starfsmönnum sínum upp á jákvætt, öruggt og gott starfsumhverfi. Slíkt krefst stöðugrar umbótavinnu.

Það er óumdeilt í nútíma samfélagi að fíknisjúkdómur er grafalvarlegur sjúkdómur sem felur í sér sjálfseyðandi hegðun þar sem sá veiki brýtur allar brýr að baki sér. Afleyðingar af neyslunni geta verið margvíslegar auk þess sem að oft þurfa skjólstæðingar að bregðast við enn djúpstæðari undirliggjandi vanda þegar neyslunni lýkur. Um marga samverkandi þætti er að ræða og er sú meðferð sem skjólstæðingar fá á Krýsuvík aðlöguð að aðstæðum hvers og eins. Eins og landslagið í fíkniefnaheiminum er í dag er ómögulegt að sjá fyrir allar þær afleiðingar sem neyslan getur haft og því getur meðferðartími skjólstæðinga verið mis langur. Því miður þá missum við allt of marga einstaklinga úr sjúkdómnum á meðan þeir eru á biðlista. Það getur gerst á öllum stigum, bæði á stofnunum og út í samfélaginu, undir eftirliti og ekki. Til Krýsuvíkursamtakanna koma þeir einstaklingar sem eru lengst leiddir í fíknisjúkdómi sínum og óumdeilt er að oft er úrræðið þeirra síðasta hálmstrá. Því miður þá er það þannig að Samtökunum tekst ekki að bjarga öllum sem leita til þeirra.

Starfsemi Krýsuvíkursamtakanna er að sjálfsögðu ekki hafin yfir gagnrýni og skoðun frekar en aðrar stofnanir sem starfa á þessum mikilvæga vettvangi. Því miður þá hefur óvægin umræða um fjármál meðferðarstofnana leitt til þess að æ fleiri úrræðum er lokað. Má þar t.d. nefna meðferðarheimili fyrir unglinga sem hafa gefist upp á að reka meðferðarúrræði í erfiðu umhverfi. Þannig virðist það oftar en ekki vera niðurstaðan að betra sé að loka úrræðum frekar en að auka eftirlit og/eða tilnefna fagaðila til þess að sjá um fjármál slíkra stofnana/heimila eða jafnvel útvista fjármálunum til viðurkenndra aðila. Það má ekki missa sjónar á því sem raunverulega skiptir máli í kjarnastarfseminni – að bjarga verðmætum mannslífum.

Sá hörmulegi atburður átti sér stað nýlega að skjólstæðingur lét lífið á heimili Samtakanna. Hugur okkar er hjá ástvinum hins látna. Á heimili Samtakanna búa einstaklingar sem eiga fjölskyldur og ástvini í samfélaginu. Ástvini sem hafa jafnvel í mörg ár gert allt sem á sínu valdi stendur til að “bjarga” þeim veika. Sú vegferð er alltaf mikil og erfið áfallasaga. Við viljum benda fjölmiðlamönnum á að sýna fjölskyldu og ástvinum þá tillitsemi að nýta ekki harmleik sem þennan í æsifréttamennsku. Á bak við hvern einstakling eru fjölmargir sem eiga um sárt að binda – foreldrar, systkini, ömmur og afar. Þá má einnig nefna vistmenn á heimili Samtakanna sem kvöddu félaga sinn en verða að halda áfram sinni vinnu í átt að bata í skugga sorgar.

Að ætla að nýta sér harmleik til þess að níða niður starfsemi Krýsuvíkursamtakanna er vægðarlaus og ljótur leikur. Það verður að krefjast þess af fjölmiðlum að þeir vandi sig í umfjöllun um stofnanir sem vinna með eins viðkvæma hópa og raun ber vitni. Það tapa allir á því að úrræðum sé lokað og að fjöldi veikra einstaklinga komi að lokuðum dyrum. Það vinna allir ef samfélagið tekur höndum saman og hafa það að sameiginlegu markmiði að veita áfengis- og vímuefnasjúklingum sérhæfða þjónustu með því að brúa bilið sem myndast hefur milli þeirra og samfélagsins vegna neyslu.

Orðum fylgir ábyrgð – jafnvel ábyrgð á lífi ástvinar.