Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Halla Tómasdóttir heimsækir Krýsuvík

Eftir Fréttir

Það var okkur sönn ánægja og heiður að taka á móti Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, á Krýsuvík í morgun. Halla kynnti sér starfsemina, tók þátt í samtölum með starfsfólki og stjórn og fékk innsýn í þá daglegu vinnu sem fer fram hér á Krýsuvík.

Við kynntum henni helstu baráttumál okkar, meðal annars mikilvægi þess að stytta biðlista og tryggja aðgengi að úrræðum fyrir þá sem þurfa á þeim að halda. Einnig ræddum við önnur brýn mál sem tengjast þjónustu okkar og framtíðarsýn.

Við áttum virkilega gott og opið samtal um málaflokkinn í heild sinni, áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir og hvaða næstu skref gætu fært nálina áfram. Það var hvetjandi að finna áhuga forsetans og viljann til að hlusta á reynslu okkar og sjónarmið.

Við erum þakklát fyrir heimsóknina og lítum á hana sem mikilvægt skref í áframhaldandi samtali um hvernig við sem samfélag getum byggt upp betri stuðning við fólk í bataferli.

Hlauptu fyrir Krýsuvík!

Eftir Fréttir

Nú er komið að árlega Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og við erum með öflugan hlaupahóp, leiddan af engri annarri en MARI JÄRSK, uppá Krýsuvík til að undirbúa starfsfólk og skjólstæðinga fyrir hlaupið!

HLAUPTU FYRIR OKKUR

Þú getur lagt þitt á plóg, tekið þátt og hlaupið fyrir Krýsuvík! 
Með því að skrá þig til að hlaupa fyrir Krýsuvík ertu ekki aðeins að taka þátt í frábærum viðburði, heldur ert þú líka að styðja mikilvægt starf sem skiptir máli fyrir allt samfélagið.

Svona tekur þú þátt:

  1. Skráðu þig í Reykjavíkurmaraþonið.

  2. Veldu Krýsuvík sem þín góðgerðarsamtök.

  3. Safnaðu áheitum og hvettu vini & fjölskyldu til að leggja sitt af mörkum.

 Skráðu þig í dag í hlaupið: corsa.is/is/reykjavikur-marathon

Við verðum með aðsetur á Laundromat Cafe í Austurstræti, þar sem þeir sem hlaupa fyrir okkur geta sótt sér hlaupabol áður en gengið er til leiks.

Heit á hlauparana okkar!

Ef þú kemst ekki í hlaupið (eða ert ekki til í að hlaupa:) en vilt styðja málefnið,  farðu inn á rmi.is til að heita á þá sem hlaupa fyrir Krýsuvík!

Hvert framlag skiptir máli 🫶

Vel heppnaður fulltrúaráðsdagur í Krýsuvík

Eftir Fréttir

Þann 31. maí síðastliðinn hélt Krýsuvík meðferðarstöð árlegan fulltrúaráðsdag með opnu húsi. Þangað mættu útskrifaðir Krýsvíkingar, stjórn, fulltrúaráð, aðstandendur, velunnarar og aðrir gestir til að njóta samveru, kynnast starfinu og skoða aðstöðuna. Dagurinn hófst með hjartanlegum móttökum þar sem gestir gátu átt gott spjall við starfsfólk og kynnst því mikilvæga starfi sem fer fram í Krýsuvík.

Um hádegi var boðið upp á glæsilega grillveislu þar sem Óskar Finnsson frá Finnsson Bistro galdraði fram ljúffenga rétti og skapaði notalega stemningu á meðal gesta. Árangursaga frá útskrifuðum Krísvíkingi hafði mikil áhrif á hópinn og að lokum tók við skemmtiatriði með Jónasi Sig, sem færði góðar sögur húmor, tónlist og góða orku inn í daginn.

Það var einstök stemning í loftinu; hlýlegt og gefandi andrúmsloft þar sem nýir og gamlir vinir Krýsuvíkur gátu hist, deilt sögum og fagnað þeim framförum sem náðst hafa í meðferðarstarfinu. Við hjá Krýsuvík viljum þakka öllum sem mættu og gerðu daginn að því sem hann var, sérstaklega Óskari Finnssyni fyrir dásamlega grillveislu og Jónasi Sig fyrir skemmtilega stund.

Frábær dagur við Hlíðarvatn með Ívari Bragasyni

Eftir Fréttir

Þann 24. maí síðastliðinn áttu vistmenn og starfsfólk Krýsuvíkur meðferðarheimilisins einstakan dag við fallega Hlíðarvatn í Selvogi. Að baki þessu skemmtilega framtaki stóð fluguveiðimaðurinn Ívar Bragason, sem hafði samband við Krýsuvík og bauð öllum vistmönnum að koma með sér á veiðar. Hugmyndin kviknaði hjá Ívari þegar hann ók framhjá Krýsuvíkurskólanum fyrr í vetur og langaði að leggja sitt af mörkum til starfsins sem þar fer fram.

Viðbrögðin meðal vistmanna voru afar jákvæð og hópur um 20 manns lagði af stað snemma morguns. Veðrið lék við okkur – bjart, logn og um 20 stiga hiti – og skilyrðin því fullkomin til útivistar og veiða. Margir í hópnum voru að prófa veiðar í fyrsta sinn og nutu þess að kynnast þessari rólegu og fallegu útivistargrein. Aðrir, sem höfðu reynslu, gátu miðlað af þekkingu sinni og hjálpað hinum.

Stemningin við vatnið var einstaklega góð allan daginn. Dagurinn skapaði dýrmæt tækifæri fyrir Krýsvíkinga til að tengjast náttúrunni, æfa núvitund og njóta félagsskapar hver annars í nýju og jákvæðu umhverfi. Slíkar samverustundir skipta sköpum í meðferðarferlinu, þar sem þær efla sjálfstraust, samstöðu og almenna líðan.

Við viljum færa Ívari Bragasyni okkar innilegustu þakkir fyrir þetta dásamlega framtak og hlýju viðmótið. Einnig viljum við þakka öllum þeim sem komu að deginum, veittu aðstoð og gerðu þetta að eftirminnilegri upplifun fyrir hópinn okkar.

Við hlökkum nú þegar til að halda áfram að skapa fleiri svona tækifæri fyrir vistmenn Krýsuvíkur þar sem náttúran, útivistin og samveran fá að spila lykilhlutverk.

LESTU MEIRA UM VEIÐINA Á MBL

Fulltrúaráðsdagur 31. maí

Eftir Fréttir

Þann 31. maí næstkomandi verður opið hús í Krýsuvík í tilefni að Fulltrúaráðsdeginum. Útskrifuðum Krýsvíkingum og velunnurum Krýsuvíkur er boðið að koma til okkar að njóta og skoða starfið og aðstöðuna.

kl 11:00 Húsið Opnar
kl 12:00 Grillveisla
kl 13:00 Skemmtiatriði

Óskar Finnsson frá Finnsson Bistro verður á grillinu og eldar ofan í okkur gómsætar veitingar.
Hlökkum til að sjá ykkur!
Elli & starfsfólk Krýsuvíkur

Farið yfir áfanga 2024

Eftir Fréttir

Aðalfundir Krýsuvíkursamtakanna, kt. 610486-1699, og Meðferðarheimilisins Krýsuvík, kt. 560991-1189, voru haldnir sameiginlega í fundarsal Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Strandgötu 43, 220 Hafnarfirði kl. 17:00 þann 9. apríl síðastliðinn

Örfáar breytingar urðu á stjórn og fulltrúarráði.

Formaður fulltrúaráðs var endurkjörinn og heldur Björg Fenger því hlutverki. Lárus Welding var einnig endurkjörinn sem stjórnarformaður samtakanna. Dr Sigrún Sigurðardóttir og Ólafur Sveinsson stigu úr fulltrúaráði og við þökkum þeim kærlega fyrir þeirra starf. Olga Lilja Ólafsdóttir og Þórhildur Lilja Ólafsdóttir komu inn þar í stað og við bjóðum þær velkomnar. Rakel Garðarsdóttir var kjörin í stjórn í stað Brynju Dan sem er nú varamaður, en hún var áður varamaður.  Aðrir meðlimir stjórnar og fulltrúaráðs héldu áfram.

Farið var yfir ársreikninga félaganna og þeir samþykktir án athugasemda

Elías Guðmundsson, forstöðumaður Krýsuvíkur, fór yfir árangurinn sem náðist árið 2024 með opnun kvennaálmu og met meðferðardögum sinntum á árinu.

Aðalfundir Krýsuvíkursamtaka og Meðferðarheimilis

Eftir Fréttir

Aðalfundir Krýsuvíkursamtakanna, kt. 610486-1699, og Meðferðarheimilisins Krýsuvík, kt. 560991-1189, verða haldnir sameiginlega í fundarsal Samfylking- arinnar í Hafnarfirði, Strandgötu 43, 220 Hafnarfirði kl. 17:00 þann 9. apríl 2025.

Á dagskrá fundanna verða eftirfarandi mál:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Sameiginleg skýrsla stjórna um starfsemi

    félaganna árið 2024 lögð fram

  3. Ársreikningar félaganna fyrir árið 2024

    lagðir fram til samþykktar

  4. Kosningar fulltrúaráðsmanna í fulltrúaráð
  5. Kosning formanns fulltrúaráðs
  6. Kjör aðalmanna og varamanna í stjórn

    og kjör stjórnarformanns

  7. Kosningar endurskoðenda
  8. Tillögur um breytingar á samþykktum félaganna
  9. Önnur mál

Tillögur frá félagsmönnum sem bera á upp á aðalfundi skulu vera komnar í hendur stjórnanna eigi síðar en fimm dögum fyrir aðalfund. Dagskrá og ársreikningar félaganna munu liggja frammi á skrifstofu félaganna félagsmönnum til sýnis fimm dögum fyrir aðalfund. Samhliða aðalfundi er haldinn fulltrúaráðsfundur og því verður ein sameiginleg fundargerð útbúin fyrir fundina.

Fundarboð þetta er sent skráðum félagsmönnum í Krýsuvíkursamtökunum og Meðferðarheimilinu Krýsuvík ásamt því að vera birt opinberlega á heimasíðu félaganna og í einu víðlesnu dagblaði með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Félagsmenn geta nálgast fundargögn rafrænt viku fyrir aðalfund, með því að senda fyrirspurn á elli@krysuvik.is. Fundargögnin verða einnig afhent á aðalfundinum.

Hafnarfjörður, 21. mars 2025,

Stjórn Krýsuvíkursamtakanna og Meðferðarheimilisins Krýsuvík.

Nýr heilbrigðisráðherra heimsækir Krýsuvík

Eftir Fréttir

Í byrjun árs heimsótti nýr heilbrigðisráðherra, Alma D. Möller, okkur í Krýsuvík og fékk að kynnast starfseminni. Lárus Welding, stjórnarformaður, Elías Guðmundsson, forstöðumaður og Vagnbjörg Magnúsdóttir áfalla og fíknifræðingur tóku á móti Ölmu og Sigríði og Margréti frá heilbrigðisráðuneytinu og sýndu þeim meðferðarhúsnæðið. Við ræddum við Ölmu af dýpt um málaflokkinn og möguleika til að stytta biðlista og auka úrræði fyrir fólk í fíknivanda. Við hlökkum til frekara samstarfs við hana og hennar ráðuneyti.

 

Elli í viðtali hjá Sigurlaugu í Segðu Mér á Rúv

Eftir Fréttir

Elías Guðmundsson forstöðumaður Krýsuvíkur í virkilega góðu og einlægu viðtali hjá Sigurlaugu í Segðu Mér á RÚV. Þar ræðir hann sína sögu og starfið á Krýsuvík undanfarin ár og þær breytingar sem hafa átt sér stað bæði á stjórnarháttum og meðferðinni að undanförnu.

„Það kom mér svo á óvart þegar ég hóf störf hvað það er mikið af góðu fólki að vinna að þessum málaflokki með hjartanu“

„Það er ekkert endilega best að mæla edrúmennsku í árum heldur í batanum“

„Í dag er komið á samtal og samvinna á milli SÁÁ, Hlaðgerðarkots og Krýsuvíkur og mikill samstarfsvilji og þannig getum við bætt starfið og stytt biðlistanna“

„Mikið af þessum skekkjum á viðhorfinu og óróleika innra með manni kemur frá áföllunum“

HLUSTAÐU Á VIÐTALIÐ HÉR

Gaf helminginn af arðinum sínum til Krýsuvíkur

Eftir Fréttir

DV fjallaði á dögunum um ótrúlega örláta og fallega gjöf sem Krýsuvík fékk frá Bjartmari Leósyni.

„Bjartmar Leósson, sem hefur viðurnefnið Hjólavíslarinn, vegna þrotlausrar vinnu sinnar og útsjónarsemi við að endurheimta stolin hjól og annað þýfi, og koma í hendur eigenda sinna, hefur gefið Krýsuvíkusamtökunum, sem sinna meðferð fíknisjúkra, hálfa milljón króna.

Bjartmar er ekki auðugur maður af fé en honum tæmdist fyrir skömmu arfur upp á eina milljón króna. Helminginn af peningunum notaði hann til að gera upp smáskuldir en afgangurinn, hálf milljón, rennur til þessara góðu og gagnlegu samtaka.

Bjartmar greindi frá þessum í Facebook-hópnum Hjóladót, sem er helsti vettvangur Bjartmars og samverkafólks hans til að auglýsa eftir stolnum munum. Mörg hinna seku í slíkum þjófnaðarmálum glíma við fíkn og Bjartmar er umhugað um lausn fíknivandans í samfélaginu. Hann gerir grein fyrir gjöfinni með þessum orðum:

„Mitt í öllu sem gengur á hér í borg varðandi marg ítrekaða þjófnaði ákveðins hóps, þá vil ég samt reyna eftir fremsta megni að sjá og skilja heildarmyndina í þessu. Þetta er í raun bara afleiðing fjársveltis og úrræðaleysis stjórnvalda sem gefur okkur þessa útkomu. Svo þegar ég fékk arf uppá milljón um daginn og gat klárað skuldir og fleira fyrir helminginn, þá fannst mér bara ljúft og skylt að skila restinni til Krýsuvíkur. Að öllum öðrum úrræðum ólöstuðum þá sé ég að þarna er verið að skerpa vel á málunum. Soldið eins og skip sem siglir gegnum ísilagt haf og ryður brautina. Á sama tíma er ég svo með bilaðan bíl og mótorhjól sem ég hefði vel getað lagað fyrir þessa summu. En þessi mál vega bara þyngra fyrir mér. Hef kynnst þónokkrum úr þessum hópi og þau hafa kennt mér mikið. Þetta væri ekki svona ef stjórnvöld myndu bara opna augun og sjá að það marg borgar sig á allan hátt að vera hér með sterk úrræði fyrir þennan hóp. Og ekki óttast kostnaðinn. Því hann væri margfalt minni en það sem samfélagið þarf að gjalda fyrir í dag eftir vanræksluna og úrræðaleysið sem ríkir í þessum málum.“